Bíræfnir þjófar stela stærðar hjólhýsi. “Einsdæmum” sem þessum fer fjölgandi. Gerum þjófunum ekki auðvelt fyrir heldur festum tryggilega hjólhýsið eða ferðavagninn við öflugann Gaur.
Sumarhúsi á hjólum stolið
Sumarfrí hjónanna Ragnhildar Bjarnadóttur og Birgis Reynissonar er í uppnámi af því sumarheimili þeirra er horfið. Húsið er á hjólum, kostar þrjár milljónir nýtt og heitir Hobby exclusive. Hjónin ætluðu að elta sólina um landið í sumarfríinu sínu. Nú er útlit fyrir að það fari í leit á afskekktum slóðum, í kjarri og trjálundum.
Vakt við Norrænu
Hjónin búa í Grafarholti en hjólhýsið hvarf af plani við íþróttahúsið í Kórahverfi, þar sem það stóð og beið viðgerða hjá Víkurverki. „Húsið var þarna minna en tvær vikur, því helgina á milli fórum við með það á Arnarstapa, skiluðum því í stæðið og skömmu síðar var það horfið,“ segir Ragnhildur Bjarnadóttir.
Ragnhildur botnar ekki í því að hægt sé að fela svona stórt hjólhýsi lengi þótt lýst sé eftir því. Reyndar sé lögreglan í Kópavogi undirmönnuð og hafi ekki tíma í að leita. „Við höldum að hjólhýsið sé ekki komið úr landi. Bróðir minn er sýslumaður á Seyðisfirði. Hann og vinir okkar fyrir austan hafa vaktað Norrænu og þar hefur húsið ekki farið um borð. Það er of stórt til að komast í gám. Þetta er óþægilegt, því í húsinu eru persónulegir munir, fötin okkar, pottar og pönnur, geisladiskar og myndir og allt sem fólk geymir í sumarhúsi. Svo er að bíða, því ekkert gerist í tryggingum fyrr en eftir langan tíma ef húsið finnst ekki,“ segir Ragnhildur. „Húsið er auðþekkjanlegt því búið er að sjóða sprungu í stuðaranum og á vinstri hjólskálinni er brún rák eftir tré, númerið Ri-026, árgerð 2005. “
Nánast einsdæmi
„Þetta er rosalega skrýtið, segir Arnar Barðdal framkvæmdastjóri Víkurverks, sem er stórfyrirtæki í sölu hjólhýsa. Fólk fer ekki langt með svona hús í leyni. Svo er rándýrt að flytja þetta úr landi. Í fyrra var stolið fellihýsi, sem fannst fljótlega, en hjólhýsin eru stærri og þetta er held ég einsdæmi.“ Hjólhýsin eru 7-8 metrar að lengd fyrir utan beisli, 12-14 fermetrar.
Talið er að um 2000 hjólhýsi séu í notkun á Íslandi, nær óþekkt er að þeim sé stolið. Hjólhýsi verður ekki auðveldlega komið úr landi. Þetta er heldur ekki þýfi sem létt er að selja.
-24 stundir, 15.júlí 2008